Stjórn Opinna Kerfa, sem sameinaðist nýlega við Premis, hefur ráðið Gunnar Zoëga sem forstjóra. Hann tekur við stöðunni af Ragnheiði Harðar Harðardóttur sem óskaði fyrr í ár eftir því að láta af störfum eftir þriggja ára starf. Í fréttatilkynningu segir að nánari upplýsingar um hvenær Gunnar taki við forstjórastöðunni verði tilkynnt síðar.
Gunnar kemur frá Origo þar sem hann hefur starfað á og stýrt ýmsum sviðum félagsins með góðum árangri frá því hann hóf fyrst störf árið 2011. Meðal annars hefur hann verið framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, framkvæmdastjóri lausna og þjónustu, og síðast framkvæmdastjóri notendalausna.
Gunnar hefur mikla reynslu í upplýsingatækni og er menntaður tölvunar- og viðskiptafræðingur frá University of South Carolina.
Sjá einnig: VEX kaupir Opin kerfi
Nýja stjórn Opinna Kerfa skipa Kári Þór Guðjónsson, sem gegnir stjórnarformennsku, Sigríður Olgeirsdóttir og Trausti Jónsson.